17 jún 2025

Úthlutað úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

Í dag, 17. júní, var úthlutað úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Sjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar á 50 ára afmæli skólans. Stærstur hluti sjóðsins er tilkominn frá Gyðu Maríasdóttur skólastjóra húsmæðraskólans en einnig frá systkinum hennar þeim Jóni, fyrrverandi útibússtjóra Landsbankans á Ísafirði og Hrefnu og Maríu en þau arfleiddu sjóðinn að miklum hluta eigna sinna.

Upphaflega var markmið sjóðsins að styrkja konur ættaðar frá Ísafirði og nágrenni til framhaldsnáms í húsmæðrafræðum. Síðar voru skilyrði sjóðsins rýmkuð og sjóðurinn styrkir nú vestfirskar konur sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Skilyrði er að umsækjendur hafi náð átján ára aldri og hafi átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár. 

Stjórn sjóðsins skipa: Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði , Margrét Rakel Hauksdóttir frá Þóreyjarsystrum í Oddfellow-stúkunni á Ísafirði og Sævar Þ. Ríkharðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði.

Sjóðurinn úthlutaði tveimur styrkjum í ár. Styrkþegar eru Jórunn Inga Guðný Sigurgeirsdóttir sem er á leið í nám í innanhúshönnun og Mariann Rähni píanónemandi í Listaháskóla Íslands.

4 jún 2025

Íslenska sem annað mál, inngilding og framhaldsskólinn - málþing

Menntaskólinn á Ísafirði hýsti dagana 2.-3. júní málþing um kennslu íslensku sem annars máls, inngildingu og fjölmenningu í framhaldsskólanum. Var viðburðurinn samstarf Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og voru fjölbreytt erindi í boði.

Í fjórum málstofum kynntu framhaldsskólar íslenskubrautir sínar og reynslu af þeim og var rætt um hvernig er að kenna íslensku sem annað mál (ÍSAN). Ísbrú, félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál, sagði frá sinni starfsemi og hvernig félagið getur stutt við ÍSAN-kennara.

Á þinginu var einnig fjallað var um hvernig inngilding birtist í skólastarfi og fengu tveir nemendur MÍ, þær Hanin al-Saedi og Anna Kuchtikova tækifæri til að segja frá sinni reynslu. Þá fóru fram kynningar á fjölbreyttu námsefni sem og kennsluaðferðum í ÍSAN-kennslu. Meðal annars var hið ísfirska verkefni „Gefum íslensku séns“ kynnt, en það var innleitt í MÍ á s.l. skólaári sem „Gefum íslensku séns í MÍ“.

Þátttakendur voru um 70 talsins og áttu margir af framhaldsskólum landsins þar fulltrúa. Fyrirlesarar voru margir úr röðum starfandi kennara, en einnig mátti t.a.m. finna fræðimenn og höfunda námsefnis.

Það er von okkar í MÍ að framhald verði af þeirri miklu samstöðu, umræðu og hugmyndum sem sköpuðust á þinginu.

27 maí 2025

Innritun í nám á haustönn

Nú stendur yfir innritun í nám á haustönn. Í boði er nám á ýmsum brautum, í dagskóla, dreifnámi og fjarnámi. Umsóknarfrestur um nám í dagskóla og dreifnámi er til 10. júní en umsóknarfrestur í fjarnámi er til 16. ágúst.

Enn eru laus pláss á ýmsar brautir í dagskóla s.s. húsasmíði, vélstjórnarbraut B og rafvirkjanám. Í dreifnámi fer af stað nýr hópur í skipstjórnarnámi A. Margir áfangar eru í boði í fjarnámi og má sjá áfangaframboðið hér.

 

Skráning í nám fyrir nemendur í 10. bekk fer fram - www.innritun.is

Skráning fyrir fyrir nemendur f. 2008 og fyrr fara fram hér - www.misa.is

Skráning fyrir nemendur í dreifnám (nám með vinnu) fer fram hér - www.misa.is

 

Skráning í fjarnám fer fram í gegn um INNU, sjá hér.

26 maí 2025

Brautskráning á vorönn 2025

Laugardaginn 24. maí voru 77 nemendur brautskráðir frá skólanum af 11 námsbrautum. Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni. Löng hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum og í ár voru það um 400 manns sem fögnuðu saman í íþróttahúsinu á Torfnesi. 

Af útskriftarnemum voru 38 dagskólanemendur, 23 dreifnámsnemendur og 12 nemendur í fjarnámi með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Að auki var fjórum nemendum veitt diplóma fyrir förðun. 

Átta nemendur útskrifuðust af húsasmíðabraut,  þrettán nemendur útskrifuðust úr iðnmeistaranámi, fimm nemendur útskrifuðust af lista- og nýsköpunarbraut, þrír nemendur útskrifuðust af Starfsbraut og fimmtán nemendur útskrifuðust af Vélstjórnarbraut A.  

33 nemendur luku stúdentsprófi. Tveir af félagsvísindabraut,  fjórir af náttúruvísindabraut, þar af tveir með íþróttasviði. 22 nemendur útskrifuðust af opinni stúdentsbraut þar af 6 með íþróttasviði. Fimm nemendur útskrifast með stúdentspróf af fagbraut. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur hátíðlegan svip á athöfnina.

Dúx Menntaskólans á Ísafirði árið 2025 er Ingibjörg Anna Skúladóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 8,78. Hún hlaut verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi sem gefin eru af Aldarafmælissjóði Ísafjarðarbæjar. nSemidúx skólans með næsthæstu meðaleinkunn við útskrift 2025 er Matilda Harriet Maeekalle með meðaleinkunnina 8,51 og hlaut hún verðlaun til minningar um Guðbjart Guðbjartsson sem gefin eru af Ragnheiði Hákonardóttur, Guðbjarti Ásgeirssyni og fjölskyldu, fyrir framúrskarandi námsárangur.

Öllum útskriftarnemum er óskað innilega til hamingju með áfangann og gæfu og gengis í framtíðinni.

23 maí 2025

Brautskráning og skólaslit

Á morgun laugardag 24. maí verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Samtals 77 nemendur munu útskrifast af ellefu námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 38 dagskólanemendur, 23 dreifnámsnemendur og 12 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Fjórir nemendur útskrifast af tveimur brautum og tíu útskriftarefni eru á íþróttasviði.

Skipting útskriftarefna eftir námsbrautum:  

Opin stúdentsbraut: 22
Félagsvísindabraut: 2
Húsasmíði: 9
Iðnmeistaranám: 13
Lista- og nýsköpunarbraut: 5
Náttúruvísindabraut: 4
Stúdentspróf af fagbraut: 4
Starfsbraut: 3
Vélstjórn A: 15

Diplóma í förðun: 4

Öll eru velkomin í athöfnina sem verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér eru tenglar á beint streymi:

Youtube
Facebook

20 maí 2025

MÁLVERK – nemendasýning

Síðastliðinn föstudag 16. maí opnuðu nemendur á lista- og nýsköpunarbraut MÍ sýninguna MÁLVERK í kjallara Safnahússins á Ísafirði. Eru verkin afrakstur málunaráfanga sem þessir nemendur hafa setið á vorönn. Sýnendur eru Alexandra Harðardóttir, Anna María Ragnarsdóttir, Brynhildur Laila R. Súnadóttir, Elísa Rún Vilbersdóttir, Hörður Christian Newman, Kristjana Rögn Andersen, Marianna Glodkowska, Mona Marína Ævarsdóttir, Oliwia Godlewska, Saga Eyþórsdóttir, Viktoriia Kryzhanovska og Þórunn Erla Harðardóttir

Sýningin verður opin t.o.m. 24. maí á opnunartímum bókasafnsins, virka daga kl. 12-18, laugardaga kl.13-16. Nemendur verða með viðveru á sýningunnunni á eftirfarandi tímum:

20. maí kl. 14–16
21. maí kl. 12–14
22. maí kl. 12–15
23. maí kl. 13-15
24. maí kl. 14-16

Hvetjum öll til að skoða þessa forvitnilegu og fjölbreyttu sýningu.

19 maí 2025

Samningur um íþróttasvið MÍ

Í dag var undirritaður samningur við Ísafjarðarbæ um íþróttasvið MÍ. Sambærilegir samningar við Súðavíkurhrepp og Bolungarvíkurkaupstað eru í gildi.

Rekstur íþróttasviðs MÍ er samvinna skólans við íþróttafélögin auk sveitarfélaganna þriggja á norðanverðum Vestfjörðum. Íþróttasvið er í boði á öllum brautum skólans. Námið er sérsniðið og hentar vel fyrir nemendur sem æfa mikið og vilja stunda sína íþrótt samhliða námi.

Á meðfylgjand mynd sjást Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar eftir undirritun samningsins.

19 maí 2025

Styrktarsjóður Gyðu Maríasdóttur

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óska og er styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár. Umsækjendur sem hafa sótt um áður mega sækja um aftur.


Umsóknir skulu berast til Heiðrúnar Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, heidrun@misa.is

Umsóknarfrestur er til 11. júní n.k. Umsókn þarf að fylgja rökstuðningur.

16 maí 2025

Nemendur útbúa skilti fyrir Hornstrandir

Nemendur á starfsbraut hafa undanfarið unnið að því að hanna og framleiða skilti fyrir friðlandið á Hornströndum og voru skiltin afhent með viðhöfn í dag 16. maí í Hornstrandastofu á Ísafirði. Aðdragandi verkefnisins var sá að Kristín Ósk Jónasdóttir starfsmaður Hornstrandastofu fékk þá hugmynd að fara í samvinnu við nemendur á starfsbraut MÍ um gerð skilta fyrir friðlandið. Íslenskt lerki var útvegað til verksins, nokkrir nemendur lærðu hvernig setja á upp verk á tölvu fyrir fræsara og svo voru skiltin fræst, málað ofan í stafina og pússað.  Mikil ánægja var með útkomuna og þótti skiltagerðin hið skemmtilegasta samvinnuverkefni. Á meðfylgjandi myndum sjáum við vinnuferlið og afhendingu skiltanna í Hornstrandastofu.

15 maí 2025

Styrkur til tækjakaupa frá Oddfellow stúkunum á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði hefur móttekið gjöf frá Oddfellow stúkunum Gesti og Þóreyju á Ísafirði. Um var að ræða styr upp á 1.3 m.kr. til kaupa á tveimur gagnvirkum skjám, annars vegar fyrir lista- og nýsköpunarbraut, hins vegar fyrir starfsbraut.

Við færum Oddfellow stúkunum bestu þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.