Úthlutað úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

17 jún 2025

Úthlutað úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

Í dag, 17. júní, var úthlutað úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Sjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar á 50 ára afmæli skólans. Stærstur hluti sjóðsins er tilkominn frá Gyðu Maríasdóttur skólastjóra húsmæðraskólans en einnig frá systkinum hennar þeim Jóni, fyrrverandi útibússtjóra Landsbankans á Ísafirði og Hrefnu og Maríu en þau arfleiddu sjóðinn að miklum hluta eigna sinna.

Upphaflega var markmið sjóðsins að styrkja konur ættaðar frá Ísafirði og nágrenni til framhaldsnáms í húsmæðrafræðum. Síðar voru skilyrði sjóðsins rýmkuð og sjóðurinn styrkir nú vestfirskar konur sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Skilyrði er að umsækjendur hafi náð átján ára aldri og hafi átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár. 

Stjórn sjóðsins skipa: Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði , Margrét Rakel Hauksdóttir frá Þóreyjarsystrum í Oddfellow-stúkunni á Ísafirði og Sævar Þ. Ríkharðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði.

Sjóðurinn úthlutaði tveimur styrkjum í ár. Styrkþegar eru Jórunn Inga Guðný Sigurgeirsdóttir sem er á leið í nám í innanhúshönnun og Mariann Rähni píanónemandi í Listaháskóla Íslands.

Til baka